Ekki tími fyrir nýjar stofnanir

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta slær mig illa. Mér finnst eins og það sé verið að stofnanavæða eignarhald á fjármálafyrirtækjum. Það finnst mér benda til að fyrirtækin verði lengur í höndum ríkisins en æskilegt er,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um Bankasýslu ríkisins sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að stofnsetja.

Markmið stofnunarinnar er að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi og fylgjast með árangri þess með markvissum hætti.

Birgir segir ekki skynsamlegt að koma á fót sérstakri stofnun um þessi mál. „Stofnanir eiga það til að þenjast út og á svona tímum, þar sem nauðsynlegt er að leggja niður stofnanir er undarlegt að það sé ákveðið að koma nýjum á fót. Þetta er ekki tími fyrir nýjar stofnanir. Miklu nær væri að halda öllu umstangi í lágmarki og ég tel að það sé hægt, án þess að afsláttur sé gefinn á nauðsynlegum faglegum vinnubrögðum.“

Í greinargerð með frumvarpi, sem lagt hefur verið fram um Bankasýslu ríkisins, segir að mikilvægt sé að íslenska ríkið marki eigendastefnu gagnvart fjármálafyrirtækjum sem það á eignarhluti í. Fjármálaráðuneytið vinni að því að móta slíka stefnu í samvinnu við viðskiptaráðuneytið. Við mótun stefnunnar verði byggt m.a. á skýrslu OECD um þessi mál sem nýlega kom út. Einnig verði horft til reynslu Norðmanna. Lykilatriðið sé að þátttaka ríkisins í rekstri fyrirtækjanna „sé gagnsæ, trúverðug og hafin yfir vafa. Vinna þarf eftir skýrum markmiðum og leikreglum en ekki hlutast til um daglega stjórn fyrirtækjanna." 

Í frumvarpinu kemur fram að sérstakri valnefnd verður farið að tilnefna einstaklinga til setu í stjórnum og bankaráðum fjármálafyrirtækja en Bankasýsla ríkisins kýs stjórnir fyrirtækjanna á hlutahafafundum. Almenningi verður gert kleift að koma nöfnum sínum og ferilskrám á framfæri við nefndina og bjóða sig þannig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrir hönd ríkisins.

Þá verður það hlutverk bankasýslunnar að meta hvenær, og hvernig, skynsamlegt verður að selja hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert