Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að engum tollkvótum til innflutnings á landbúnaðarvörum (svokölluðum WTO tollkvótum) verði úthlutað að þessu sinni. Ástæðan fyrir þessu er sögð sú að ekki séu forsendur fyrir úthlutun "vegna stöðu gengis krónunnar og hækkunar á innflutningsverði landbúnaðarvara," eins og segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins.
Ísland hefur gert tvo alþjóðlega samninga sem heimila innflutning á landbúnaðarvörum í takmörkuðum magni. Þetta eru WTO-samningurinn og samningur við Evrópusambandið um verslun með landbúnaðarvörur. Oftast nær hefur eftirspurn eftir því að flytja inn búvörur, aðallega kjöt, verið meiri ef heimilt er samkvæmt samningnum. Þess vegna hefur landbúnaðarráðuneytið birt auglýsingu þar sem óskað er eftir umsóknum um tollkvóta. Um er að ræða tvær auglýsingar, annars vegar á svokölluðum WTO-tollkvótum og hins vegar ESB-tollkvótum.
Eftir að Alþingi samþykkti samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um mitt ár 1995 var opnað fyrir innflutning á landbúnaðarvörum sem ekki höfðu áður verið fluttar til landsins á WTO-kvótum. Samningurinn gerir ráð fyrir ákveðnu lágmarksmagni matvöru sem skylt er að flytja til landsins á lágum tollum. Í samningunum var miðað við að magn innfluttra landbúnaðarvara yrði þrjú til fimm prósent af innanlandsneyslu á árunum 1986 til 1988. Samningurinn var upphaflega til sex ára en sökum þess að nýir samningar hafa ekki náðst hefur það magn sem úthlutað var síðasta gildisár samninganna haldist óbreytt frá árinu 2001 en um það voru ákvæði í samningunum.
Í rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðuneytisins segir: "Tollur á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt tollkvótum í viðauka IIIA, skal vera 32% af grunntaxta viðkomandi vöruliðar eins og hann er tilgreindur í viðauka IIA, en viðmiðun hans er bundin í SDR/kg eða sem % tollur af innflutningsverði. Við nýja útreikninga ráðuneytisins, þar sem ákveðið hefur verið að miða við % tollinn, hefur komið í ljós að vegna stöðu gengis krónunnar og hækkunar á innflutningsverði landbúnaðarvara, eru ekki forsendur til að úthluta sérstaklega WTO tollkvótum eins og nú háttar."