Eftir að gjaldeyrishöftunum var komið á laggirnar til að sporna við erlendu útflæði gjaldeyris og styrkja gengi íslensku krónunnar hafa margir stórir útflytjendur verið með sérstaka undanþágu frá reglunum.
Borið hefur á því að einhver fyrirtækjanna sem í hlut eiga hafi nýtt tekjur í erlendum gjaldeyri til þess að kaupa krónur á aflandsmarkaði, þar sem miklu fleiri krónur fást fyrir t.d. evrur, og þannig hagnast á reglunum í stað þess að fylgja skilaskyldunni samviskusamlega.
Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, hefur nú boðað fulltrúa tuttugu stærstu útflutningsfyrirtækjanna á Íslandi á sinn fund til þess að ræða eftirlit og eftirfylgni með framkvæmd reglna um gjaldeyrismál.
Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu rannsakað átta mál þar sem grunur leikur á að reglur um höftin hafi verið brotnar. Forstjóri FME sagði við Morgunblaðið í síðustu viku að ýmsar aðferðir væru notaðar til að fara framhjá reglunum. Dæmi eru um að tekjur af útflutningi skili sér ekki nema að hluta til baka. Eftirlitið hafi því eftir ábendingar frá Seðlabankanum farið að rannsaka slík tilvik. Brot geta þýtt stjórnvaldssekt upp á tíu þúsund til tuttugu milljónir króna fyrir einstakling. Hjá fyrirtækjum eru sektirnar frá fimmtíu þúsund og upp í sjötíu og fimm milljónir króna.