Gera má ráð fyrir að um 15% foreldra verði fyrir skerðingu vegna breytinga á hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði. Breytingin hefur meiri áhrif á feður en mæður vegna þess að karlar hafa almennt hærri laun en konur.
Fyrirhugað er að lækka hámarksgreiðslu í fæðingar- og foreldraorlof úr 400.000 krónum í 350.000 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við 80% af 437.500 króna meðaltalsmánaðartekjur í stað 500.000 króna áður. Greiðslur til foreldra sem hafa lægri mánaðartekjur en 437.500 krónur að meðaltali verða eftir sem áður 80% af meðaltali heildarlauna.
Í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir að gera megi ráð fyrir að rúmlega 15% foreldra verði fyrir skerðingu vegna þessarar aðgerðar ef tekið er mið af reynslu fæðingarorlofskerfisins síðustu mánaða. Áætla er að rúmlega 30% karla verði fyrir skerðingu en innan við 10% kvenna. Þó ber að hafa í huga að laun hafa væntanlega þegar eitthvað lækkað og mun sú þróun að líkindum halda áfram.
Áætlaður sparnaður af þessari aðgerð er 350 milljónir kr. á ársgrundvelli.