Ábyrgðasjóður launa mun hætta að greiða vexti á þær kröfur sem sjóðurinn ber ábyrgð á, en þetta mun leiða til þess að launafólk, sem fær greitt úr sjóðnum, fær lægri upphæð greidda en það hefði annars fengið.
Tillaga um þetta er að finna í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem nú liggur fyrir Alþingi. Hlutverk Ábyrgðasjóð launa er að greiða fólki laun sem hefur unnið hjá fyrirtækjum sem hafa orðið gjaldþrota og geta af þeim sökum ekki greitt laun í samræmi við kjarasamninga. Áætlað er að á þessu ári nemi útgjöld sjóðsins um 1.800 milljónum, en í fyrra námu útgjöld sjóðsins 920 milljónir.
Ekki kemur fram í fréttatilkynningu félagsmálaráðuneytisins hversu mikið ríkið sparar með því að hætta að greiða vexti á þær kröfur sem Ábyrgðasjóðurinn ber ábyrgð á. Hins vegar segir í fréttatilkynningunni að þegar litið sé til reynslu sjóðsins megi gera ráð fyrir að þessi aðgerð hafi meiri áhrif á karla en konur því að fleiri karlar en konur leita almennt til sjóðsins. Á árinu 2008 leituðu samtals 1067 einstaklingar eftir ábyrgð sjóðsins, þar af voru 287 konur og 780 karla.
Ákvörðun um að hætta að greiða vexti á kröfur nær til allra krafna launafólks um vinnulaun, bóta vegna launamissis og orlofslauna sem og krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld.