Íslendingar hafa verk að vinna

Kristín Ingólfsdóttir rektor heilsar nemanda í dag.
Kristín Ingólfsdóttir rektor heilsar nemanda í dag. mbl.is

„Við Íslendingar höfum verk að vinna. Við þurfum að ná áttum eftir efnahagshrun, við þurfum að skapa starfsvettvang til að halda í okkar hæfileikaríkasta fólk og við þurfum að efla á ný orðstír á alþjóðavettvangi,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, í ávarpi við brautskráningu í dag.

Kristín sagði að nýsköpunarstarf gæti orðið lykilþáttur við uppbyggingu landsins. „Nýsköpun vísar ekki einungis til nýjunga í tækni eða stofnunar sprotafyrirtækja.    Nýsköpun leiðir af sér nýrækt á öllum sviðum.    Árangursrík nýsköpun er oftar en ekki afrakstur margra ára og áratuga uppbyggingar í þekkingarleit og þróun.    Hugmynd sem varð uppspretta að fyrirtækinu Marel kviknaði til að mynda í rannsóknaverkefni við Háskóla Íslands, en meira en 20 ár liðu þar til fjárhagslegur arður varð af starfseminni.    Með nýsköpun er sáð til framtíðar en við ættum ekki að líta á hana sem skyndilausn.    Við Íslendingar erum duglegt vertíðarfólk og engin skyldi vanmeta árangur áhlaupavinnu, en breiddin, jafnvægið og þolinmæðin ættu að verða leiðarstefin í uppbyggingunni,“ sagði Kristín.

Hún sagði einnig að mikilvægt væri að efla uppbyggingu doktorsnáms til þess að nýsköpun gæti notið sín til fulls. Í ávarpi hennar kom fram að nýsköpun mælist lakari hér en í öðrum löndum OECD. „Við mótun stefnu Háskóla Íslands 2006 til 2011 settum við metnaðarfull markmið um verulega fjölgun doktora, enda nauðsynlegur liður í rækt við nýsköpun á öllum sviðum og til að mæta þörfum atvinnulífs líkt og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.    Útlit er fyrir að markmið okkar um fimmföldun doktora frá Háskóla Íslands á 5 árum náist .     Fjöldi brautskráðra doktora    verður þá um helmingur þess sem gerist í löndum Evrópu í dag, en þetta verður gífurlega mikilvægt áfangamarkmið sem við höfum lagt grunn að með metnaði, stefnufestu, hörkuvinnu leiðbeinenda og stúdenta,“ sagði Kristín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert