Sjóðsbjörgun betri en kæra

Gunnar I. Birgisson
Gunnar I. Birgisson Gúndi

Gunnar I. Birgisson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, segir einkennilegt að FME hafi kært stjórn sjóðsins til lögreglu vegna málefna lífeyrissjóðsins. Legið hafi fyrir samkomulag, frá 19. maí, um að sjóðurinn fengi svigrúm til 31. júlí til þess að koma sínum málum á hreint.

„Meðal annars vegna þessa samkomulags, sem gert var á fundi 19. maí, þá finnst mér ákvörðun FME um að kæra stórundarleg,“ segir Gunnar.

Hann segir ennfremur að stjórnin hafi öðru fremur verið að verja hagsmuni sjóðsfélaga með öllum aðgerðum sínum. Málið snýst m.a. annars um kaup lífeyrissjóðsins á skuldabréfi sem Kópavogsbær gaf út. Með því hafi bærinn fjármagnað sig að hluta í gegnum lífeyrissjóðinn. Við útgáfu var skuldabréfið undir lögbundnu 10 prósent hámarki af heildareignum. Vegna verðbólgu og vaxta, og rýrnunar annarra eigna hafi skuldabréfið farið yfir lögbundið hámark.

„Þegar bankakerfi landsins hrundi þá leituðum við allra leiða til þess að verja sjóðinn, og við gerðum okkur grein fyrir að þetta kynni að fara á svig við lög og létum FME vita af því. Við vorum í algjörri nauðvörn með sjóðinn, eins og allir aðrir. Við náðum upphæð út úr bönkunum fyrir hrun og það var erfitt að setja peningana í öruggt skjól. Það voru að líkindum tugir milljarða undir koddunum hjá fólki á þessum tíma. Við þorðum ekki að fjárfesta í hlutabréfum og gátum ekki fjárfest í ríkisskuldabréfum, svo dæmi séu tekin. Við ákváðum því að lána Kópavogsbæ á hæstu vöxtum, einmitt til að verja sjóðinn og gæta hagmuna sjóðsfélaga. Þetta skilaði sér í því að við vorum með næstbestu ávöxtun allra lífeyrissjóða í landinu. Menn verða svo að hafa í huga að Kópavogsbær er ábyrgðaraðili sjóðsins,“ segir Gunnar.

Hann segir betra að bjarga lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogsbæjar en að vera kærður. Það verði bara að fara sýna leið en hann sé ekki með neitt á samviskunni. „Því er hins vegar ekki að leyna að stjórninni þykir mjög miður að þetta hafi endað með kæru á hendur okkur, sérstaklega í ljósi samkomulagsins sem var fyrir hendi. Vonandi verður fallið frá þessu enda er þetta algjört smámál í samanburði við það sem FME ætti að vera vinna við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert