„Stemmningin var góð“

Mótmælendur á Austurvelli.
Mótmælendur á Austurvelli. Heiðar Kristjánsson

Nokkur hundruð manns komu saman á Austurvelli til að taka þátt í mótmælaaðgerðum sem skipulögð voru af Röddum fólksins. Nokkrir mótmælenda kveiktu í flugeldatertu, með tilheyrandi sprengingum, en að öðru leyti hefur allt gengið friðsamlega fyrir sig að sögn lögreglu.

Forsvarsmenn Radda fólksins og lögreglan voru ekki sammála um hversu margir hefðu verið á Austurvelli. Lögreglan sagði um 100 en hjá Röddum fólksins fengust þær upplýsingar að um 1000 manns hefðu verið á svæðinu. Aðrir sem voru á svæðinu, sem mbl.is ræddi við, sögðu að líklega hefðu nokkur hundruð manns verið á svæðinu þegar mest var.

„Þetta gekk skínandi vel og stemmningin var góð,“ sagði Hörður Torfa, forsprakki Radda fólksins. Annar mótmælafundur var boðaður á laugardaginn eftir viku. „Það getur samt vel verið að blásið verði til fundar í miðri næstu viku. Það mikil undiralda í þjóðfélaginu vegna stöðu heimilanna. Stóra spurningin er; hvenær á að gera eitthvað fyrir þau?“ sagði Hörður í samtali við mbl.is.

Andrea Ólafsdóttir frá hagsmunasamtökum heimilanna og Jóhannes Þ. Skúlason, sagnfræðingur og grunnskólakennari, fluttu ræður, m.a. um Icesave-skuldbindingar og stöðu heimila og fyrirtækja. Mótmælendur kröfðust þess að útrásarvíkingar og auðjöfrar, sem stofnað hefðu til skulda sem þjóðin sæti nú uppi með, myndu svara til saka.

Heiðar Kristjánsson
Heiðar Kristjánsson
Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert