Stofna Bankasýslu ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um Bankasýslu …
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um Bankasýslu ríkisins. Árni Sæberg

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að koma á fót nýrri ríkisstofnun sem kemur til með að heita Bankasýsla ríkisins. Markmið stofnunarinnar er „að byggja upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi og fylgist með árangri þess með markvissum hætti."

Það er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem lagði frumvarpið fram á Alþingi. Bankasýslu ríkisins er ætlað að starfa í fimm ár, en að þeim tíma loknum verður stofnunin lögð niður. Gert er ráð fyrir að yfir stofnuninni verði þriggja manna stjórn og að hún ráði forstjóra. Miðað er við að starfsmenn Bankasýslunnar verði 3-5 og að árleg útgjöld hennar verði 70-80 milljónir sem greiðist úr ríkissjóði.

Í fyrstu grein frumvarpsins segir að „markmið þessarar nýju stofnunar [sé] að stuðla að uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings."

Í greinargerð með frumvarpinu segir að mikilvægt sé að íslenska ríkið marki eigendastefnu gagnvart fjármálafyrirtækjum sem það á eignarhluti í. Fjármálaráðuneytið vinni að því að móta slíka stefnu í samvinnu við viðskiptaráðuneytið. Við mótun stefnunnar verði byggt m.a. á skýrslu OECD um þessi mál sem nýlega kom út. Einnig verði horft til reynslu Norðmanna. Lykilatriðið sé að þátttaka ríkisins í rekstri fyrirtækjanna „sé gagnsæ, trúverðug og hafin yfir vafa. Vinna þarf eftir skýrum markmiðum og leikreglum en ekki hlutast til um daglega stjórn fyrirtækjanna." 

Í frumvarpinu kemur fram að sérstakri valnefnd verður farið að tilnefna einstaklinga til setu í stjórnum og bankaráðum fjármálafyrirtækja en Bankasýsla ríkisins kýs stjórnir fyrirtækjanna á hlutahafafundum. Almenningi verður gert kleift að koma nöfnum sínum og ferilskrám á framfæri við nefndina og bjóða sig þannig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrir hönd ríkisins.

Á að undirbúa sölu banka

Eitt af hlutverkum Bankasýslu ríkisins verður að undirbúa og vinna tillögur um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og gera tillögur til fjármálaráðherra um hvort og hvenær fýsilegt sé að bjóða tiltekna eignarhluti til sölu á almennum markaði.

Frumvarpið veitir Bankasýslu ríkisins heimild til að stofna og fara með eignarhluti í hlutafélögum svo framarlega þau þjóni hlutverki og tilgangi stofnunarinnar. Í greinargerð segir að þarna gæti verið um að ræða félög sem hefðu það markmið að aðstoða fjármálafyrirtæki við endurskipulagningu fyrirtækja. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert