Vond áhrif af uppsögn samninga

Gylfi Arnbjörnsson segir það grundvallaratriði að staðið verði við gildandi …
Gylfi Arnbjörnsson segir það grundvallaratriði að staðið verði við gildandi kjarasamninga. Eggert Jóhannesson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ljóst að samskipti launþegahreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins (SA) verði með allt öðrum og verri hætti fari svo að SA segi upp kjarasamningum um næstu mánaðamót. Forsvarsmenn SA segja uppsögn samninga óhjákvæmilega ef Seðlabankinn lækkar ekki vexti.

Óformleg samtöl um framlengingu kjarasamninga hafa átt sér stað um helgina. Gylfi sagði að ASÍ tæki undir kröfu Samtaka atvinnulífsins um lækkun vaxta. Hann sagðist hins vegar ekki sjá fram á að einhver breyting væri að verða á afstöðu Seðlabankans sem hefur viljað fara mjög varlega í að lækka vexti. Gylfi sagði að þess vegna hefðu menn reynt að finna leiðir til að auðvelda Seðlabankanum að stíga skref í átt til frekari lækkun vaxta. Hann sagði tillögur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum jákvætt innlegg í málið. Nauðsynlegt væri þó einnig að setja fram markmið í ríkisfjármálum fyrir árin 2011 og 2012. ASÍ hefur einnig sett fram hugmyndir um breytingar á lögum um gjaldeyrishöft og rekið á eftir tillögum um fjármögnun viðskiptabankanna.

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins segja að ekki séu forsendur fyrir þeim launahækkunum sem núgildandi kjarasamningar gera ráð fyrir ef vextir í landinu verða ekki lækkaðir verulega. Óbreyttir vextir kalli á uppsögn kjarasamninga um næstu mánaðamót.

Gylfi sagði að ef kjarasamningum yrði sagt upp færðist umboð til gerð nýrra samninga til aðildarfélaga ASÍ. Hann sagðist ekki vilja spá fyrir um hvað gerðist í framhaldinu, en öllum mætti vera ljóst að reiðialda færi yfir vinnumarkaðinn ef reyna ætti að ná niður vöxtum í landinu með því að hafa launahækkanir af lægstlaunaða fólkinu.  Hann sagði að þá yrði uppstytta í samskiptum ASÍ og SA. Samstarf aðila vinnumarkaðarins yrði með allt öðrum hætti en það væri í dag. Hann sagði að niðurstaða í viðræðum réðust á næstu 2-3 dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert