Fjórar langreyðar eru komnar á land í Hvalfirði, en þar vinna um 70 manns að hvalskurði og vinnslu hvalaafurða. Þoka og lélegt skyggni er nú á miðunum. Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson segir að vertíðin fari vel af stað og vonast eftir að takist að veiða fleiri dýr í dag.
"Það er eins og verksmiðjan hafi stoppað í fyrradag, en ekki fyrir 20 árum," sagði Gunnlaugur þegar hann var spurður hvernig gengi að koma verksmiðjunni í gang.
Hvalur 9 er nú á miðunum, en stefnt er að því að Hvalur 8 fari út í næstu viku. Gunnlaugur sagði að stutt væri á miðin og nægur hvalur í sjónum. Það þyrfti hins vegar að vera sæmilega gott skyggni svo að hvalveiðimenn gætu athafnað sig.
Gunnlaugur sagði að um 70 manns störfuðu hvalsstöðinni í Hvalfirði, um 30 manns væru í áhöfn hvalbátanna og um 20 manns ynnu í frystingunni á Akranesi.
Samkvæmt reglugerð sjávarútvegsráðherra má í ár veiða 150 langreyðar.