Dæma fyrirtæki til gjaldþrots

Jón Steindór Valdimarsson
Jón Steindór Valdimarsson

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að með boðuðum niðurskurði í vegagerð sé ríkisstjórnin að dæma fleiri fyrirtæki til gjaldþrots og enn fleira fólk til atvinnuleysis.

Ríkisstjórnin hefur boðað að skorið verði niður í vegagerð um 3,5 milljarða á þessu ári og 8,2 milljarða á næsta ári. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sagði í samtali við mbl.is, að þessi ákvörðun leiddi til þess að hætta yrði  útboð í vegamálum sem auglýsa átti í sumar.

Jón Steindór segir í pistli á heimasíðu Samtaka iðnaðarins að það sé ótrúlegt að sjá hve ríkisstjórninni séu mislagðar hendur í boðuðum aðgerðum til þess að takast á við efnahagsvandann. Vissulega sé vandinn ærinn og taka þurfi margar erfiðar ákvarðanir en það leysi ríkisstjórnina ekki undan því að beita almennri skynsemi í aðgerðum sínum. "Að óreyndu verður ekki öðru trúað en hún taki sönsum."

Jón Steindór segir að verktakastarfsemi í landinu sé að blæða út. "Tölur um gjaldþrot fyrirtækja og gríðarlegt atvinnuleysi í greininni tala þar skýrustu máli. Það er því ótrúlegt að lesa fréttir um að Vegagerð ríkisins neyðist til að hætta við allar nýframkvæmdir vegna þess að ríkisstjórnin boðar niðurskurð upp á 3,5 milljarða á þessu ári og 8,2 milljarða á því næsta til vegagerðar. Með þessu er verið að dæma fleiri fyrirtæki til gjaldþrots og enn fleira fólk til atvinnuleysis. Væri nú ekki nær að halda sig við þær framkvæmdir sem eru arðbærastar og skila þjóðfélaginu ávinningi til lengri tíma litið? Eina huggunin sem vegamálastjóri sér í málinu er að ekki þurfi að segja upp starfsfólki hjá Vegagerðinni þrátt fyrir þetta!! Ríkisstjórnin segir að ekki eigi að segja upp ríkisstarfsmönnum en hikar ekki við að taka lifibrauðið frá fólki sem starfar á almennum markaði"

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert