Fréttaskýring: Eignaumsýslufélag tekur hamskiptum

Upphaflega var eignaumsýslufélagið hugsað sem eins konar krani til að …
Upphaflega var eignaumsýslufélagið hugsað sem eins konar krani til að hífa atvinnulífið upp úr svaðinu. Nú eru hugmyndirnar öllu fínstilltari.

Óðfluga styttist í að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fái heimild Alþingis til að stofna eignaumsýslufélag, sem tryggja á rekstur atvinnufyrirtækja sem standa höllum fæti. Á föstudag samþykkti þingheimur viðamiklar breytingatillögur meirihluta efnahags- og skattanefndar á frumvarpinu um félagið. Eðli félagsins er nú breytt og markmið laganna skilgreint upp á nýtt. Aukin áhersla er lögð á að takmarka afskipti hins opinbera af atvinnulífinu, en í vetur þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var það gagnrýnt fyrir að opna á spillingu með of víðtækri pólitískri íhlutun í fyrirtæki.

Var alltof loðið og óljóst

Fyrri skilgreiningu á tilgangi eignaumsýslufélagsins hefur nú verið skipt út. Hvergi er lengur talað um „þjóðhagslega mikilvæg“ fyrirtæki sem sérstakt viðfangsefni þess, enda vita fáir hvaða fyrirtæki fylla þann flokk. Hér er farið eftir ráðum Mats Josefssons, formanns nefndar um endurreisn bankakerfisins, sem sagði þetta atriði bæði loðið og óljóst á fundi með þingnefndinni.

Þess í stað segir nú í fyrstu grein frumvarpsins, að eignaumsýslufélagið skuli með ráðgjöf tryggja hlutlæga, sanngjarna og gagnsæja skuldameðferð fyrirtækja, að teknu tilliti til jafnræðis- og samkeppnissjónarmiða. Í stað þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja er nú talað um „rekstrarhæf“ fyrirtæki. Þar er átt við fyrirtæki sem munu skila framlegð eftir endurskipulagningu.

Sem fyrr segir er meiri áhersla á ráðgjöf og samræmingu heldur en valdbeitingu og yfirtöku fyrirtækja. Upphaflega sagði í fyrstu grein frumvarpsins að félagið mætti kaupa, eiga, endurskipuleggja og selja fyrirtæki ef nauðsynlegt þætti. Þetta hefur verið tekið út. Þess í stað segir nú í þriðju grein að félagið hafi slíkar heimildir einungis í undantekningartilvikum og skuli þá starfa gagnsætt og hlutlægt með áherslu á jafnræði og samkeppnissjónarmið. Í þessum anda var því bætt inn að staða framkvæmdastjóra félagsins skuli auglýst.

Lagt niður 31.desember 2015

Til að undirstrika ráðgjafarhlutverk eignaumsýslufélagsins hefur því verið kippt út að byggja skuli upp, innan félagsins, heildstæða þekkingu á endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja. Ekki er lengur lögð sérstök áhersla á að þekkingin skuli vera innan félagsins sjálfs, heldur getur hún verið í bönkum og fjármálafyrirtækjum, sem það á að vera til ráðgjafar. Enda er mótsagnakennt að halda þekkingu innan félags sem á að leggja niður á fyrirfram ákveðnum degi, nánar til tekið 31. desember 2015.

Önnur mikilvæg breyting er sú að valdheimildir félagsins hafa verið takmarkaðar við skuldameðferð fjármálafyrirtækja sem eru í beinni eða óbeinni ríkiseigu, eða á opinberum fjárframlögum samkvæmt neyðarlögunum. Þau sem enn standa á eigin fótum verða því ekki háð valdi eignaumsýslufélags ríkisins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert