Óðfluga styttist í að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fái heimild Alþingis til að stofna eignaumsýslufélag, sem tryggja á rekstur atvinnufyrirtækja sem standa höllum fæti. Á föstudag samþykkti þingheimur viðamiklar breytingatillögur meirihluta efnahags- og skattanefndar á frumvarpinu um félagið. Eðli félagsins er nú breytt og markmið laganna skilgreint upp á nýtt. Aukin áhersla er lögð á að takmarka afskipti hins opinbera af atvinnulífinu, en í vetur þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var það gagnrýnt fyrir að opna á spillingu með of víðtækri pólitískri íhlutun í fyrirtæki.
Þess í stað segir nú í fyrstu grein frumvarpsins, að eignaumsýslufélagið skuli með ráðgjöf tryggja hlutlæga, sanngjarna og gagnsæja skuldameðferð fyrirtækja, að teknu tilliti til jafnræðis- og samkeppnissjónarmiða. Í stað þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja er nú talað um „rekstrarhæf“ fyrirtæki. Þar er átt við fyrirtæki sem munu skila framlegð eftir endurskipulagningu.
Sem fyrr segir er meiri áhersla á ráðgjöf og samræmingu heldur en valdbeitingu og yfirtöku fyrirtækja. Upphaflega sagði í fyrstu grein frumvarpsins að félagið mætti kaupa, eiga, endurskipuleggja og selja fyrirtæki ef nauðsynlegt þætti. Þetta hefur verið tekið út. Þess í stað segir nú í þriðju grein að félagið hafi slíkar heimildir einungis í undantekningartilvikum og skuli þá starfa gagnsætt og hlutlægt með áherslu á jafnræði og samkeppnissjónarmið. Í þessum anda var því bætt inn að staða framkvæmdastjóra félagsins skuli auglýst.
Önnur mikilvæg breyting er sú að valdheimildir félagsins hafa verið takmarkaðar við skuldameðferð fjármálafyrirtækja sem eru í beinni eða óbeinni ríkiseigu, eða á opinberum fjárframlögum samkvæmt neyðarlögunum. Þau sem enn standa á eigin fótum verða því ekki háð valdi eignaumsýslufélags ríkisins.