Gunnar fer í leyfi

Gunnar hyggst fara í leyfi.
Gunnar hyggst fara í leyfi.

Gunnar I. Birgisson sendi frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að hann muni fara í tímabundið leyfi sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi í Kópavogi meðan á rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra stendur á málefnum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogs.

Gunnar sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að ekki kæmi til greina að segja af sér sem bæjarfulltrúi. „Nei, ég tel mig ekki hafa framið neinn glæp og við í stjórninni vorum einungis að hugsa um hagsmuni sjóðsins," sagði Gunnar.

Fyrir lá fyrir helgi, að Gunnar myndi hætta sem bæjarstjóri vegna viðskipta Frjálsrar miðlunar, félags dóttur hans, við Kópavogsbæ. Gert var ráð fyrir að það yrði ákveðið á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi á morgun hver tekur við af Gunnari. 

Í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld sagði Gestur Valgarðsson, formaður Framsóknarfélags Kópavogs í Kópavogi, að framsóknarmenn stæðu frammi fyrir tveimur kostum. Annar sé að mynda nýjan meirihluta með Samfylkingunni og VG og hinn að halda samstarfi með sjálfstæðismönnum áfram, án Gunnars Birgissonar, sem viki þá strax bæði sem bæjarfulltrúi og sem stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum.

Yfirlýsing Gunnars

„Ég undirritaður vík sæti sem bæjarstjóri í Kópavogi og bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Kópavogs á meðan lögreglurannsókn fer fram á málefnum Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Slík rannsókn ein og sér vekur tortryggni sem gerir mér ókleift að sinna störfum mínum eins og málum er að öðru leyti háttað.
 
Ég treysti því að rannsókninni verði flýtt sem kostur er enda liggur málið ljóst fyrir í gögnum lífeyrissjóðsins en fjármálaráðuneytið hefur samkvæmt tillögu Fjármálaeftirlitsins skipað honum umsjónaraðila.
 
Ég vísa að öðru leyti í yfirlýsingu kjörinna stjórnarmanna lífeyrissjóðsins frá 19. júní sl. og árétta að stjórnin var samstíga í því efni að vernda hagsmuni sjóðfélaga og var reglulega upplýst um allar aðgerðir hans.
 
Gunnar I. Birgisson"
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert