Öllum útboðum á vegum Vegagerðarinnar í sumar hefur verið frestað. Ekkert verður því af tvöföldun Suðurlandsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ að sinni. Framlög til vegagerðar verða lækkuð um 3,5 milljarða á þessu ári og 8,2 milljarða á næsta ári frá því sem ákveðið hafði verið.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri segir að ekki sé búið að útfæra í einstökum atriðum hvernig skorið verður niður í vegamálum. Það sé þó ljóst að ekkert verði farið út í neinar nýframkvæmdir að sinni. Það þýðir að verkum sem átti að bjóða út í sumar verði frestað um ótiltekinn tíma. Hann segir að meðal framkvæmda sem áformað hefði verið að bjóða út á næstu vikum væri fyrsti áfangi í tvöföldun Suðurlandsvegar og tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ. Bæði þess verk hefðu verið nánast tilbúin til útboðs.
Hreinn sagði að ákvörðun um að hætta við útboð snertu verkefni um allt land. Hann sagði að þessi ákvörðun hefði mikil áhrif á verktaka sem hefðu ætlað sér að bjóða í eitthvað af þessum verkefnum.
Hreinn sagði að Vegagerðin myndi leggja áherslu á að ljúka þeim verkefnum sem væru í gangi. Hann tók þó fram að ekki væri útilokað að hægja þyrfti á einhverjum verkefnum sem þegar væru í gangi.
Aðspurður sagði Hreinn að þessi mikli niðurskurður á framlögum til Vegagerðarinnar þyrfti ekki endilega að leiða til uppsagna á starfsfólki. Ríkisstjórnin hefði gefið yfirlýsingar um að ekki væri stefnt að uppsögnum starfsfólks heldur frekar lækkunar launa. Hreinn sagði að mest af undirbúningi og eftirliti á vegum Vegagerðarinnar væri unnið af ráðgjöfum. Niðurskurðurinn kæmi því illa við verkfræðistofur sem unnið hefðu fyrir Vegagerðina.