Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, voru þokkalega bjartsýnir á að samkomulag næðist um efnahagsmálin eftir fund með oddvitum ríkisstjórnarflokkanna í stjórnarráðinu í kvöld.
Gylfi og Vilhjálmur ætla að halda áfram að ræða málin í kvöld ásamt félögum sínum í höfuðstöðvum Samtaka atvinnulífsins. Gylfi sagði eftir fundinn í kvöld að hann hefði trú á því að menn væru að þokast í átt að samkomulagi. Hann sagðist vona að á næsta sólarhring myndi þroskast samkomulag sem gæti dugað til að halda þessu samstarfi áfram.
Gylfi sagði að menn hefðu rætt þær "ákvarðanir ríkisstjórnar sem gætu leitt til þess að Seðlabankinn gæti fyrr og hraðar tekið ákvarðanir um vaxtalækkun og þannig komið til móts við atvinnulífið svo það axli þær byrgðar sem okkar kjarasamningur felur í sér. Það er vilji til vinna áfram á þessum nótum og sjá hvort við náum ekki til lands. "
Gylfi sagði að allt hefði verið undir á fundinum. Menn hefðu rætt um gjaldeyrishöft og stefnu í vaxtamálum. Einnig hefði verið rætt um ríkisfjármál á árunum 2011 og 2012.
Á fundinum var m.a. rætt um mikinn niðurskurð í verklegum framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur boðað, en í honum felst m.a. 3,5 milljarða niðurskurður til vegamála á þessu ári og 8,2 milljarða niðurskurður á næsta ári. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði ekki koma til greina að draga úr sparnaði í ríkisfjármálum. Gylfi sagðist vonast eftir að lífeyrissjóðirnir væru tilbúnir að koma að fjármögnun framkvæmda sem yrðu þá utan ríkisreiknings. Slíkt myndi stuðla að því að hægt yrði halda uppi atvinnu í landinu.