Ók á hurðir slökkviliðsins

Bílinn endaði inn á plani hjá lögreglunni við Hverfisgötu.
Bílinn endaði inn á plani hjá lögreglunni við Hverfisgötu. Heiðar Kristjánsson

Ökumaður olli stórtjóni á sex útkeyrsluhurðum hjá Slökkvistöð höfuðborgarsvæðisins í Skógarhlíð í Reykjavík í kvöld. Ökumaðurinn ók á dyrnar og skemmdi þær.

Ekki er vitað hvað manninum gekk til en samkvæmt upplýsingum mbl.is hafði hann áður hótað að skaða lögreglumenn eða opinbera starfsmenn. Hann reyndi m.a. að aka inn í samskiptamiðstöð lögreglunnar við Skógarhlíð.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri sagði í samtali við mbl.is í kvöld, að hurðir slökkvistöðvarinnar væru ónothæfar og því væri ekki hægt að koma slökkvibílunum út. Búið væri að virkja aðrar stöðvar í Reykjavík og því teldi hann að hættuástandi myndi ekki skapast þó að brunaboð kæmi í kvöld. Hann sagði að búið væri að kalla út viðgerðarmenn og reynt yrði að gera við til bráðabirgða í nótt.

Reynt var að stöðva manninn við Skógarhlíð, en það tókst ekki. Eftir að hafa ekið á hurðirnar ók maðurinn á miklum hraða eftir Bústaðavegi. Þar reyndi sjúkrabíll að stöðva manninn en hann hélt áfram eftir Snorrabraut, þar sem hann ók á bíl á leiðinni, og að lögreglustöðinni við Hverfisgötu þar sem lögreglubíll ók á bílinn og stöðvaði hann.

Maðurinn er núna í haldi lögreglu. Jón Viðar sagðist engar skýringar hafa á hegðun mannsins. Ljóst væri að hann hefði verið mjög einbeittur í því að vinna skemmdir á slökkvistöðinni. Hann hefði ekið ítrekað á hurðirnar. 

Ekki er búið að meta fjárhagslegt tjón á slökkvistöðinni eða bílum lögreglunnar, en ljóst er að það skiptir milljónum.

Reynt var að stöðva manninn við slökkvistöðina með lögreglubíll.
Reynt var að stöðva manninn við slökkvistöðina með lögreglubíll. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka