Sakar Gunnar um blekkingar

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Kópavogs.
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Kópavogs. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Flosi Eiríksson, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Kópavogs, sakar Gunnar I. Birgisson, stjórnarformann sjóðsins, um að hafa reynt að villa um fyrir eða blekkt Fjármálaeftirlitið án vitneskju annarra stjórnarmanna í lífeyrissjóðnum.

Flosi sendi ásamt öðrum stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði Kópavogs frá sér yfirlýsingu á föstudaginn þar sem aðgerðir stjórnar sjóðsins eru varðar. Þar segir: "Í efnahagsumrótinu á umliðnum vetri tók stjórn LSK yfirvegaða og upplýsta ákvörðun um, að besta leiðin til að verja hagsmuni sjóðfélaga væri að ávaxta laust fé sjóðsins til skamms tíma hjá Kópavogsbæ, þótt það væri ekki í fullu samræmi við heimildir, enda ber Kópavogsbær fulla ábyrgð á öllum skuldbindingum sjóðsins umfram eignir."

Undir þessa yfirlýsingu skrifa meðal annarra Gunnar I Birgisson og Flosi Eiríksson sem báðir sitja í stjórn Lífeyrissjóðs Kópavogs.

Í yfirlýsing frá Flosa Eiríkssyni í morgun segir hann að fyrri yfirlýsing hans hafi byggst á upplýsingum sem við nánari skoðun hafi ekki reynst réttar.

Í yfirlýsingu Flosa frá því í morgun segir: "Í ljósi frétta af samskiptum Fjármálaeftirlitsins (FME) og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Í vetur sem leið stóð stjórn sjóðsins frammi fyrir ákvörðun um hvernig ávaxta skyldi umtalsverðar upphæðir sem sjóðurinn átti í handbæru fé. Við þáverandi aðstæður á fjármálamarkaði taldi stjórnin ekki hyggilegt að ávaxta féð hjá viðskiptabönkunum og taldi önnur verðbréf á markaði heldur ekki nægilega trygga fjárfestingu.

Í ljósi þessa ákvað stjórnin að veita Kópavogsbæ skammtímalán gegn hárri ávöxtun, en gerði sér um leið grein fyrir að með því væri farið yfir það hámark sem lána má til einstakra aðila. Gerðar voru ráðstafanir til að upplýsa FME um þessa aðgerð um leið og til hennar var gripið, svo að viðeigandi eftirlitsstofnun væri kunnugt um málið.

FME gerði athugasemdir við þetta fyrirkomulag og í kjölfarið var stjórnarformanni og framkvæmdastjóra sjóðsins falið að leita lausna í málinu í samráði við FME.

Á stjórnarfundi LSK 18. maí sl. voru lögð fram afrit af bréfum milli FME annars vegar og stjórnarformanns og framkvæmdastjóra LSK hins vegar. Þar kom m.a. fram að LSK hefði frest til 29. maí til að gera úrbætur á fjárfestingum sjóðsins, en að öðrum kosti myndi Fjármálaeftirlitið leggja á sjóðinn dagsektir.

Á sama fundi lagði framkvæmdastjóri fram undirbúningsminnispunkta um fund sem halda átti daginn eftir. Í þeim segir m.a. um skammtímalán til Kópavogsbæjar: „Fundur með FME hér á morgun 19. maí. 3 fulltrúar FME, undirrituð, stjórnarformaður og fjármálastjóri fulltrúar sjóðsins. Erum búin að leysa þetta mál.“

Eftir þetta hefur ekki verið haldinn fundur í stjórn sjóðsins og stjórninni ekki gerð grein fyrir því með neinum hætti að niðurstaða fundarins hafi verið önnur en ætlað var. Á stjórnarfundum kom einnig margítrekað fram af hálfu stjórnarformanns að verið væri að vinna að úrlausn mála í góðu samstarfi við FME og að fulltrúar sjóðsins kappkostuðu að leggja öll spil á borðið.

Við nánari skoðun mína á margvíslegum gögnum, sem ég hef undir höndum sem stjórnarmaður og hef einnig aflað mér sérstaklega, lítur út fyrir að gögn hafi verið matreidd sérstaklega fyrir stjórn sjóðsins en aðrar upplýsingar hafi síðan verið kynntar í lögbundnum skýrslum til FME. Afborganir og útborganir á lánum til bæjarins virðast hafa verið tímasettar sérstaklega til að villa um fyrir eða blekkja FME, án vitneskju almennra stjórnarmanna.

Í þessu efni er nauðsynlegt að hafa í huga að í krafti stöðu sinnar sem stjórnarformaður tekur bæjarstjóri Kópavogs þátt í daglegum ákvörðunum um rekstur sjóðsins og er að sjálfsögðu kunnugt um allar lánveitingar til bæjarins og afborganir af þeim.

Það er erfitt fyrir stjórnarmenn að sinna skyldum sínum þegar svona er staðið að málum. Yfirlýsingar mínar um málið hafa verið byggðar á þeim gögnum sem kynnt hafa verið og afhent í stjórn.

Ég mun óska eftir að fá að hitta saksóknara efnahagsbrota, sem er með málefni sjóðsins til skoðunar, til að leggja fram nauðsynleg gögn til að upplýsa um vinnubrögð þau er FME gerir alvarlegar athugasemdir við og viðhöfð voru án vitundar flestra stjórnarmanna."

Flosi Eiríksson.
Flosi Eiríksson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka