Ómar Stefánsson formaður bæjarráðs Kópavogs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins telur að bæjarstjórinn Gunnar I. Birgisson hafi vísvitandi borið rangar upplýsingar á borð fyrir Fjármálaeftirlitið varðandi greiðslur úr sjóðum Lífeyrissjóðs Kópavogs í bæjarsjóðinn.
„Við lögðum alla tíð áherslu á það að við vissum að við vorum að fara á svig við reglurnar og því sóttum við um undanþágu frá Fjármálaeftirlitsins. Við hefðum samviskulaust getað tapað þessum peningum, bara hent þeim út í loftið og keypt hlutabréf í Baugi Group og Spron og Exista og öllu þessu drasli," sagði Ómar í samtali við mbl.is.
Verið að leyna FME staðreyndum
„Við tókum upplýsta ákvörðun um að setja þetta inn í bæjarsjóðinn en við vildum að FME vissi þetta, við héldum að FME hefði fengið þessar upplýsingar en þegar maður ber saman gögnin sem eru lögð fram á milli funda þá sér maður alveg hvernig fiffið er og að það er verið að leyna FME öllum staðreyndum. Það var ekki komið hreint fram við okkur af formanni og framkvæmdastjóra," sagði Ómar.
„Klúðrið hjá okkur er að hafa ekki bara sett stjórnarmann með í viðbót. Það sem Flosi rekur í fjölmiðlum í dag er einfaldlega rétt," sagði Ómar að lokum.