Án efa stuðst við gögn gamla Landsbankans

Fjármálaráðherra sagði á Alþingi, að breska endurskoðunarstofnunin CIPFA hafi án efa nálgast gögn gamla Landsbankans þegar hún mat það svo að eignir Landsbankans geti staðið undir allt að 95% af andvirði Icesave innistæðutrygginganna.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, sem birtist um miðjan júní, sagði að breska endurskoðunarstofnunin CIPFA geri ráð fyrir því að eignir Landsbankans geti staðið undir allt að 95% af andvirði Icesave innistæðutrygginganna. Í því tilviki myndu um 33 milljarðar auk vaxta falla á ríkissjóð.

Í skýrslu frá CIPFA er m.a. vitnað til þess, að nýjustu upplýsingar frá skilanefnd Landsbankans bendi til þess að eignir bankans (1194 milljarðar króna) nægi til að greiða um það bil 90% af innistæðum Icesave-reikningseigenda, sem nemi 1338 milljörðum króna. Er vitnað til upplýsinga á vef Landsbankans. 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, spurði Steingrím m.a. að því á Alþingi í dag hvort CIPFA hefði stuðst við skýrslur Landsbankans þegar hún veitti þetta mat. Steingrímur sagðist ekki þekkja það en hann gerði ráð fyrir, að endurskoðunarstofnunin hafi nálgast gögn hjá skilanefnd gamla Landsbanlans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka