Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samningaviðræður um svonefndan stöðugleikasáttmála mjakist áfram en að hann þori ekki að vera jafn bjartsýnn og forsvarsmenn BSRB sem greini frá því á heimasíðu samtakanna að stefnt sé að því að ganga frá samkomulagi í dag.
Vilhjálmur segir að enn sé beðið eftir því að ríkisstjórnin leggi fram gögn sem hún hafi ætlað að leggja fram í dag. Til hafi staðið að þau yrðu lögð fram á fundi klukkan hálf tólf en að það hafi dregist. Enn sé unnið að því að ganga frá gögnunum og vonast sé til þess að þau verði lögð fram síðar í dag. Á meðan beðið sé vinni menn að öðrum málum.
„Við reynum að klára það sem við getum á meðan við bíðum," sagði Vilhjálmur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „En það er ekkert í höfn fyrr en það er allt í höfn.”