Skilanefnd Kaupþings hefur hafið endurgreiðslur til innistæðueigenda bankans í Þýskalandi og þegar sent fyrirmæli um endurgreiðslu innistæðna til um 20.000 viðskiptavina.
Að sögn skilanefndarinnar munu endurgreiðslur innistæðna halda áfram á næstu dögum og er vonast til að þær berist til ríflega 34.000 viðskiptavina Edge á næstu vikum.
Skilanefndin tilkynnti um miðjan apríl að nægt fjármagn væri fyrir hendi til að greiða út allar innistæður Edge í Þýskalandi. Um miðjan maí var ljóst að endurgreiðsluferlið gæti hafist en það fólst m.a. í því að öllum innistæðueigendum bankans í Þýskalandi var sent bréf frá Íslandi og þeir gátu í framhaldinu staðfest reikningsupplýsingar til að taka við endurgreiðslunni.
Alls sendi bankinn bréf til rúmlega 34 þúsund innistæðueigenda og hefur nú þegar fengið staðfestingu til baka frá stærstum hluta þeirra. Þegar hafa um 20 þúsund staðfestingar verið skráðar og greiðslufyrirmæli vegna þeirra verið send til Þýskalands. Af tæknilegum ástæðum er endurgreiðsluferlið tekið í skrefum sem þýðir að fyrstu innistæðueigendur munu fá endurgreitt á næstu dögum og aðrir í framhaldinu.
Heildargreiðsla til innistæðueigenda Kaupþing Edge í Þýsklandi mun nema rúmlega 320 milljónum evra sem samsvarar um 58 milljörðum króna.
Steinar Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir í tilkynningu að margt hafi tafið þetta ferli og það hafi verið flóknara en nokkurn óraði fyrir að klára þetta mál. Þegar endurgreiðslum til innstæðueigenda í Þýskalandi ljúki hafi allar forgangskröfur innstæðueigenda í útbúum Kaupþings verið greiddar án þess að króna falli á íslenska skattgreiðendur.