Fangelsi fyrir hótanir

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í hálfs árs fangelsi fyrir hótanir í garð annars manns og 10 ára dóttur hans. Var tilgangur hótananna að fá manninn til að draga til baka kæru hjá lögreglu sem leitt hafði til þess að höfðað var sakamál á hendur þeim sem hótaði.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hótaði stúlkunni því í símtali í desember á síðasta ári, að faðir hennar kæmi aftur blóðugur heim.  Síðan hótaði hann föðurnum því, að honum yrði ekki líft á Íslandi.

Forsaga málsins er, að maðurinn, sem varð fyrir hótuninni, lagði fram kæru á hendur tveimur mönnum  hjá lögreglunni á Höfn vegna líkamsárásar og ólögmætrar nauðungar sem átti sér stað í febrúar 2008. Var ákæra gefin út í apríl 8. apríl 2008. Aðalmeðferð í því máli fór fram 19. desember sama ár og dómur var kveðinn upp 8. janúar 2009.

Mennirnir þar sakfelldur meðal annars fyrir líkamsárás með því að slá manninn hnefahöggum í andlit, toga eyrnalokk úr eyra hans og sveigja aftur þrjá fingur hans á hægri hendi. Þá voru þeir sakfelldir fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa neytt hinn manninn til að hlaupa nakinn um húsnæðið. 

Maðurinn, sem dæmdur var fyrir hótanirnar, á að baki 10 ára sakarferil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert