Icesave kostar minnst 300 milljarða

Vextir vegna Icesave samningsins eru ekki forgangskröfur í eignir Landsbankans. Það þýðir að 300 milljarðar vegna Icesave munu alltaf falla á íslenska innlánstryggingasjóðinn eða íslenska ríkið, hvað sem fæst fyrir eignirnar. Þetta kom fram á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun með skilanefnd Landsbankans.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist sleginn yfir þessum hörmulegu upplýsingum. Hann segir að stjórnarliðar hafi verið blekktir til stuðnings við samkomulagið með pótemkímtjöldum. Hann segist ekki geta talað fyrir alla sjálfstæðismenn en sjálfur muni hann aldrei greiða þessum samningi atkvæði í þessari mynd.

Tryggvi Þór segist vilja, að málið verði leyst með því að gefa ríkisábyrgð á óbreyttan samning en þó með því skilyrði að við þyrftum aldrei að greiða meira en eitt prósent af landsframleiðslu á ári í sjö ár.

Hann viðurkennir að sjálfstæðismenn hafi í raun rutt veginn með því að samþykkja að semja um greiðslur vegna Icesave reikninganna án þess að málið fari fyrir dómstóla. Íslendingum hafi verið stillt upp við vegg af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu vegna EES samningsins og aðeins hafi verið samþykkt að fara samningaleiðina. Hann spyr þó hvort það sé fimmhundruð milljarða virði að hafa þá góða. Sjálfur telji hann ekki að svo sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka