Frumvarp um Bankasýslu ríkisins, sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mælti fyrir á Alþingi í dag, fékk frekar kaldar kveðjur frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að það hefði verið „kafkaísk" lífsreynsla að lesa frumvarpið og varla væri hægt að ímynda sér meira bákn en Bankasýslu ríkisins. Slík stofnun myndi sóma sér vel sem sögusvið í sögu eftir Franz Kafka.
Guðmundur velti því fyrir sér hvers vegna þetta frumvarp væri með sömu annmarka og frumvarp um eignaumsýslufélag rekstrarhæfra fyrirtækja: þá að fjármálaráðherra skipaði einn í stjórn þessara stofnana. Spurði Guðmundur hvort ráðherrann hefði ekki áhyggjur af því að vera kominn með of mikil völd.
Steingrímur sagði að sér dytti frekar Milan Kundera í hug en Kafka þegar verið væri að ræða um þessi mál. Hann sagðist hafa fengið gömlu bankana þrjá í arf og einnig stæði til að ríkið setti eignarhluti inn í velflesta sparisjóði landsins. „Það sem verið er að gera er að færa þessa hluti út úr ráðuneytinu yfir í sjálfstæða einingu, fjær afskiptum ráðherrans og yfir á faglegan grunn," sagði Steingrímur.
Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að sig hefði sundlað þegar hún las frumvarpið. Hún sagðist gera sér grein fyrir því að einhvern strúktur þyrfti varðandi bankaumsýsluna en hún hefði efasemdir um að í frumvarpinu væri gengið nógu langt í að skilja á milli fjármálaráðuneytisins og stofnunarinnar.