Framsóknarmenn munu ekki leggja til bæjarstjóraefni, verði samstarfi haldið áfram við Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi. Ráðning utanaðkomandi aðila til að taka að sér verkefni bæjarstjóra kemur heldur ekki til greina.
Fulltrúaráð beggja flokka eru á fundi í kvöld. Þá ræðst hvort samstarfið heldur áfram eður ei.
Gestur Valgarðsson, formaður Framsóknarfélags Kópavogs, segir samstarfið velta á því hve afgerandi tillaga sjálfstæðismanna um framhaldið verði. Þar þurfi þrennt að koma fram. Í fyrsta lagi að Gunnar hætti sem bæjarstjóri fram að kosningum, hver taki við honum fram að þeim tíma og að sú breyting taki gildi nú þegar.
Auk þessa fundar Samfylkingin í Kópavogi í kvöld og mun Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, heimsækja hann. Sá fundur er opinn, enda um hefðbundinn mánudagsfund flokksins að ræða.