Eiður: Dómstóllinn ekki til

Eiður Guðnason
Eiður Guðnason mbl.is

Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra Alþýðuflokksins og sendiherra, segir engin lagarök að baki grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttardómara, um Icesave málið í Morgunblaðinu í gær. Hún sé pólitískt innlegg  í málið og sá dómstóll sem ætti að fjalla um deiluna sé ekki til.

Eiður skrifaði svohljóðandi pistil á heimasíðu sína í gærkvöldi:

„Virðulegur hæstaréttardómari segir í þessari Morgunblaðsgrein, að það sé  skylda  ráðamanna að láta dómstóla  fjalla um Iceasave-málið. Nú geta  menn haft ýmsar skoðanir á því hvort  hæstaréttardómari  eigi að blanda sér í  deilumál  af þessu  tagi með þeim hætti sem Jón Steinar Gunnlaugsson gerir. Víst tel  ég að það  þætti ekki við hæfi í grannlöndum okkar.

Það er hinsvegar  athyglisvert að  hæstaréttardómarinn   forðast  eins og heitan eldinn að nefna   hvaða  dómstóll ætti að  fjalla um deiluna. Sem er  auðskilið. Sá  dómstóll er  nefnilega ekki til. Ætti það að  vera   Efta dómstóllinn?  Bretar  eiga  enga  aðkomu að honum. Ætti það að vera dómstóll ESB?  Við eigum  enga aðkomu að honum.

Eru allir  búnir  búnir að  gleyma  því þegar Bretar  vildu  leggja   landhelgisdeiluna  fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag, en  Íslendingar  sögðu  nei.   Við  viðurkenndum ekki að  sá  dómstóll  hefði  lögsögu í málinu.

Samþykki  beggja  þarf til að  fara  dómstólaleiðina. Þar þarf  tvo  til. Við bætist að  við  vorum  fyrir  löngu  búin að  skuldbinda okkur  til að fara  samningaleiðina í þessu máli. Fleiri og   veigameiri  rök liggja  til þess að  dómstólaleiðin svokallaða hefur aldrei verið  fær í þessum máli.

Allt þetta veit  Jón Steinar Gunnlaugsson. Það eru engin lagarök að baki grein hans í Morgunblaðinu. Hún er  pólitískt innlegg  í málið. Og  líklegt gott innlegg að mati þeirra sjálfstæðismanna, sem nú hafa ákveðið að hlaupast frá ábyrgð sinni á málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert