Háar sektir sjaldnast greiddar

Um 1.600 eru á biðlista eftir afplánun vararefsingar. Ríkisendurskoðun telur …
Um 1.600 eru á biðlista eftir afplánun vararefsingar. Ríkisendurskoðun telur að fjölga þurfi fangaklefum verulega. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lítill hluti hæstu sekta sem dómstólar ákveða er greiddur. Yfirleitt eru hæstu sektir gerðar upp með svonefndri samfélagsþjónustu. Þetta á við um 81% sekta sem voru 8 milljónir kr. eða hærri á tímabilinu 2000‐2006. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar.

Ríkisendurskoðun telur að með því að heimila fullnustu hárra sekta með samfélagsþjónustu í stað afplánun vararefsingar í fangelsi sé verið að milda viðurlög samkvæmt dómum. Það eigi sérstaklega við um sektadóma fyrir skattalagabrot. Einnig að fjölga þurfi verulega fangelsisrýmum til að unnt sé að fullnusta vararefsingar fésekta með fangelsi. 

Í skýrslunni segir að í árslok 2008 hafi 1.600 manns verið á biðlista um afplánun vararefsingar. Ekki eru líkur á fækkun á þeim lista í bráð.

Stofnunin telur að kanna þurfi hvort verið sé að senda rétt skilaboð út í samfélagið með því að fullnusta svonefnd „hvítflibbabrot“ með samfélagsþjónustu. Meginmarkmið refsinga sé að skapa almenn varnaðaráhrif og fæla frá lögbrotum.

Hindra þarf undanskot verðmæta

Ríkisendurskoðun telur að innheimta lægri sekta og sakarkostnaðar sé í góðu horfi hér á landi. Eftir að þær ná 500 þúsund kr. eða meira heyri hins vegar til undantekninga að þær séu greiddar. Meginreglan er sú að þær séu fullnustaðar með samfélagsþjónustu, og sjaldnar vararefsingu, þ.e. fangelsisvist

Þá telur stofnunin að veita þurfi innheimtuaðilum öflugri lagaleg úrræði til að hindra að eignum eða fjármunum sé skotið undan þegar sakfelling liggur fyrir og háar sektir blasa við. Einnig þurfi að athuga hvort heimila eigi kyrrsetningu eigna á rannsóknarstigi þegar hætta er á undanskotum og sekt þykir nokkuð óyggjandi.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er til staðar heimild til að draga sektarfjárhæðir frá launum. Stofnunin telur að kanna þurfi lögfestingu slíkrar heimildar hér á landi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert