Hugsar daglega um Icesave-klúðrið

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson.

Björgólfur Thor Björgólfsson, kaupsýslumaður, segir í bréfi til Illuga Jökulssonar að það líði ekki sá dagur að hann hugsi ekki um  Icesave klúðrið og velti því fyrir sér hvernig sé best að lenda þessu máli þannig að ekkert falli á endanum á þjóðarbú Íslendinga og almenningur þurfi ekki að greiða af ábyrgðunum.

Illugi sendi Björgólfi opið bréf um helgina og spurði hvort hann myndi ekki örugglega leitast af fremsta megni við að borga þá alla upphæð sem afgangs verði þegar eignir Landsbankans hafi verið seldar.

Illugi birtir svarbréf Björgúlfs á bloggsíðu sinni í dag. Þar segist Björgólfur m.a. vilja að skoðað verði hvort að á næstu sjö til fimmtán árum verði ekki hægt að koma íslenska ríkinu út úr þessum ábyrgðum og leysa þar með áhyggjur þjóðarinnar af þessu máli.

„Sjö ár eru langur tími í viðskiptum og margvísleg tækifæri kunna að skapast til að auka verðmæti eignasafns Landsbankans og jafnframt tækifæri til að ná niður ábyrgðum ríkisins. Ljóst er að okkar besta fólk þarf að standa vaktina því mikið er í húfi og hafa í huga að öll fljótfærni við ákvarðanatöku getur haft neikvæð áhrif í framtíð," segir hann.

Björgólfur ítrekar að hann vilji  gera sitt til að hjálpa Íslandi við að rétta úr kútnum efnahagslega. „Það besta sem ég hef upp á að bjóða er möguleikinn á að fá erlenda  fjárfesta til að taka þátt í uppbyggingu á íslensku atvinnulífi. Að því vinn ég um þessar mundir," segir hann.

Björgólfur segist einnig ekki hafa hugmynd um  fjárhagslega stöðu sína núna og enn minni hugmynd um stöðu sína eftir sjö ár. „Nú vinn ég alla daga við að skapa verðmæti úr eignasafni mínu og árangur í því skiptir líka máli fyrir íslensku bankana og eru því hagsmunir íslensku þjóðarinnar og mínir þeir sömu í þeim efnum."

Heimasíða Illuga Jökulssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka