„Við erum að fara hér inn á ókannað svæði en að ýmsu leyti eru hefðbundin vinnuverkföll fyrirmyndin,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, meðstjórnandi stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, um mögulegt greiðsluverkfall. Í kvöld stendur til að félagsfólk greiði atkvæði um hvort farið skuli formlega í slíkt verkfall og hætt verði að greiða af lánum.
Tilgangur greiðsluverkfallsins yrði að knýja fram breytingar á húsnæðislánum vegna brostinna forsendna sem samtökin telja að fylgt hafi kreppunni.
Í drögum að ályktun fundarins í kvöld er almenningur hvattur til að fara í greiðsluverkfall. Þar eru einnig talin til markmið þess, en meðal þeirra er að lánsfjárhæðir sem tengdar eru gengi erlendra gjaldmiðla verði yfirfærðar í íslenskar krónur á gengi lántökudags og að verðtrygging lána verði afnumin. „Ég vona að þetta verði til þess að hlustað verði á okkur,“ segir Þorvaldur, en hann gerir sér vonir um að nokkrar þúsundir taki þátt í verkfallinu, komi til þess.
Inntur eftir því hvort ekki komi til greina að freista þess að fá lánasamningunum rift eða breytt fyrir dómstólum á grundvelli brostinna forsendna segir Þorvaldur að í bígerð sé fjöldi mála. Dómstólaleiðina segir hann þó of seinvirka: „Ef fólk er búið að missa eigur sínar í millitíðinni er það til lítils gagns að fá dóm um að það hafi verið óréttmætt.“