Icesave-skuldaklukka

Opnuð hefur verið netsíða með skuldaklukku þar sem áætluð er heildarstaða Icesave-skuldbindinga þjóðarinnar miðað við gengi krónu gagnvart pundi og evru og vexti sem skuldin ber. 

„Þetta eru bara við félagarnir sem ákváðum að setja þetta upp á myndrænan hátt svo fólk geti glöggvað sig á stöðunni,“ segir Sævar Guðmundsson en hann stendur að síðunni ásamt Einari Björgvini Sigurbergssyni.

Á síðunni, sem nefnd er iceslave.is, má sjá heildarstöðu Icesave skuldarinnar og hve háar skuldirnar eru við Breta annars vegar og Hollendinga hins vegar. Þá er hægt að skoða þróun skuldarinnar til framtiðar og hvernig vextir leggjast við höfuðstólinn.

Í fréttatilkynningu Sævars og Einars segir: „Það er von aðstandenda síðunnar að hún veiti almenningi upplýsingar um stöðu skuldarinnar beint og milliliðalaust og verði þess valdandi að sem flestir átti sig á þeim miklu skuldbindingum sem fylgja því að gangast undir nauðungarsamninga við Breta og Hollendinga.“

Þar segir einnig, að skuldbindingar vegna Icesavesamkomulagsins í árslok 2015 muni nema 1.060.289.783.222 krónum miðað við óbreytt gengi og verðlag samkvæmt skuldaklukkunni.

Iceslave-vefurinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert