„Í morgun var komist að samkomulagi um að setja á fót hóp skipaðan örfáum lykilríkjum sem verður falið að leita málamiðlunar milli andstæðra fylkinga fyrir næsta ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins,“ segir Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í ráðinu. Hann segir að farið hafi verið fram á að Ísland taki sæti í þessum hópi og að við því verði orðið.
Tómas er nú staddur á ársfundi Alþjóðhvalveiðiráðsins sem stendur út vikuna. „Stærsta málið á fundinum er framtíð Hvalveiðiráðsins en ráðið hefur vart verið starfhæft vegna ágreinings hvalveiðisinna og andstæðinga hvalveiða,“ segir Tómas.
Tómas segir að það skýrist á næstu dögum hvaða önnur ríki munu taka sæti í hópnum en þar muni eiga sæti þau ríki sem eigi mestra hagsmuna að gæta. „Það liggur fyrir að þessi hópur mun halda lokaða fundi. Þetta verða trúnaðarfundir en það var talið lykilatriði ætti að nást árangur í þessu mikilvæga máli,“ segir Tómas. Hann segir að hópurinn muni svo gefa skýrslu um niðurstöður fundanna.
Tómas segist verða var við mikinn sáttatón á ársfundinum. „Ríki hafa borið gæfu til að láta vera að hafa uppi gagnrýni hvert gegn öðru,“ segir Tómas. „Það er eins og menn séu að átta sig á því að það verður að taka upp önnur vinnubrögð eigi árangur að nást. Forsendan sé að hlusta á rök hvers annars og hafa uppi málefnalegan málflutning,“ segir Tómas.