Ólíklegt að sátt náist í dag

Fulltrúar ASÍ koma til fundar í Stjórnarráðinu í gærkvöldi.
Fulltrúar ASÍ koma til fundar í Stjórnarráðinu í gærkvöldi. mbl.is/Ómar

Ólíklegt að sátt fáist um stöðugleikasamkomulagið í dag. Atriði er varða ríkisfjármálin standa út af. Verið er að ræða útfærslu kjarasamningum hjá aðilum vinnumarkaðarins.

,,Mér finnst ólíklegt að sátt um stöðugleikasamkomulag náist í dag en maður á aldrei að segja að aldrei, " segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmastjóri ASÍ um stöðu viðræðanna milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisins sem nú eiga sér stað í Karphúsinu.

Verið er að fara yfir stöðu mála á formannafundi ASÍ á Grand hótel. Halldór sagði að annars vegar væri verið að fara yfir stöðuna varðandi stöðugleikasáttmálann en þar stæðu nokkur atriði út af ennþá. ,,Stóra málið þar er það sem lýtur að ríkisfjármálum og hvernig þetta mun gera sig 2011-2013," segir Halldór. Þar er um að ræða skattamál og samspil tekjuöflunar og aðhaldsaðgerða. Umræður um þessi mál standa nú yfir í Karphúsinu.

Á formannafundinum er hins vegar verið að fara yfir tillögur um drög að samkomulagi er lýtur að kjarasamningum. Þar liggi fyrir ákveðnar tillögur sem verið sé að taka afstöðu til. Hvað launahækkanir varðar séu tillögurnar tvískiptar. Annars vegar sé um að ræða taxtahækkanir og hins vegar launaþróunartryggingu. Er þetta útfærsla á þeim launabreytingum sem áttu að koma inn 1. mars og út samningstímann. Munu samningarnir ná til þeirra sem heyra undir kjarasamninga milli ASÍ og SA en einnig fjölmargra fyrirtækjasamninga og samninga SA við aðra aðila.

Annað sem verið er að ræða á formannafundinum er hvernig atkvæðagreiðslu vegna samninganna verði háttað meðal aðildarfélaga en misjafnt er milli félaga hvernig þau hafa hugsað sér hana, allt frá allsherjaratkvæðagreiðslu til samþykktar stjórnar. Endanleg ákvörðun liggur þó hjá samninganefnd ASÍ.

Að því gefnu að stöðugleikasamkomulag og kjarasamningar verði brátt í höfn er gert ráð fyrir að kosningu félaga um ASÍ um samningana liggi fyrir ekki síðar en um miðjan júlí.

Halldór Grönvold
Halldór Grönvold SteinarH
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert