Þegar fulltrúar ASÍ og SA mættu til fundar við ráðherra ríkisstjórnarinnar, fulltrúa sveitarfélaga og lífeyrissjóða í stjórnarráðinu kl. 21 í gærkvöld, höfðu aðilar vinnumarkaðarins þegar gengið frá drögum að samkomulagi sín í milli.
Drögin fela það í sér, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að samkomulag hefur tekist um launalið kjarasamninganna til 1. nóvember nk. Jafnframt voru aðilar vinnumarkaðarins ásáttir um þá tímaáætlun sem þurfi að vinna eftir frá 1. júlí nk. til 1. nóvember nk. til þess að ná vaxtastiginu niður í eins stafs tölu og styrkja gengi krónunnar. Það var m.a. það tímaplan sem fulltrúar vinnumarkaðarins hugðust kynna stjórnvöldum á fundinum.
Geti ráðið til sín fólk
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins telja aðilar vinnumarkaðarins að það sem sé þýðingarmest á næstu vikum og mánuðum sé að ganga þannig frá hnútum að tryggja fyrirtækjunum í landinu fjármagn, svo þau geti farið að ráðast í framkvæmdir og ráða til sín fólk. Sömu heimildir herma, að ákveðinn skilningur sé fyrir hendi hjá SA og ASÍ að ríkisstjórnin geti ekki tekið neinar þær ákvarðanir, sem kosti ríkissjóð stórkostlega fjármuni. En það verði einfaldlega að höggva á hnútinn og ná sameiginlegri niðurstöðu.