Tortryggnin í samfélaginu

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segist ekki óróleg út af Icesave samningnum. Of mikil tortryggni sé ríkjandi í garð hans. Nýtt lögfræðiálit bendi eindregið til þess að rétt leið hafi verið valin en því verður dreift með frumvarpi um ríkisábyrgðir.

Jóhanna segir að að sé óvanalegt að það sé sett endurskoðunarákvæði í samning sem sé algerlega lántakanda í vil.  Hún segist telja að það sé fullur stuðningur við málið í stjórnarflokkunum og ríkisstjórnin þurfi því ekki að reiða sig á stuðning úr Sjálfstæðisflokki.

Mikil óvissa er bundin eignamati bankanna. Nýtt mat bendir til þess að eignir bankans hafi rýrnað um 100 milljarða frá því í febrúar. Jóhanna segir það vissulega vonbrigði en það mikilvægasta sé að að þurfa ekki að greiða af láninu fyrr en eftir sjö ár, á þeim tíma gætu eignirnar hækkað verulega í verði.

Vextir af Icesave láninu frá Bretum og Hollendingum er ekki forgangskrafa og geta hæglega numið allt að 300 milljörðum króna ef beðið verður með að selja eignir.

Jóhanna vill láta leggja sérstakt álag á fjármálastofnanir sem gangi inn í tryggingasjóðinn til að hindra að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldirnar sem kunni að falla á Tryggingasjóð innstæðueigenda eða ríkið vegna þessa.

Jóhanna segist skilja reiði fólks í garð útrásarvíkinganna sem rúlluðu þessu öllu af stað, Það sé allt kapp lagt á að ná til þessara manna og eigna þeirra og í kjölfar rannsóknar sérstaks saksóknara þurfi þeir líka að standa fyrir máli sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert