Uppgreiðslugjöld á íbúðalánum verða afnumin um óákveðinn tíma hjá Nýja Kaupþingi frá og með fyrsta júlí. Fram að þessu hefur uppgreiðslugjald verið 2% af fjárhæð innborgunar. Bankinn vill með þessu koma til móts við þá viðskiptavini sem vilja greiða hraðar niður húsnæðisskuldir sínar.
Bankinn hefur enn fremur bætt þjónustu sína í netbankanum þannig að nú geta viðskiptavinir sjálfir greitt inn á höfuðstól allra lána í netbankanum án milligöngu þjónustufulltrúa.
Í tilkynningu frá Kaupþingi segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, að í flestum tilvikum sé hagstætt að greiða niður vaxtaberandi skuldir. Það að afnema uppgreiðslugjaldið og gera fólki kleift að greiða inn á lán sín í netbankanum auðveldar viðskiptavinum að greiða hraðar niður lán.