Lögmannafélag Íslands segir varhugavert, að rannsakendur eða handhafar opinbers valds freisti þess að ná fram úrlausn um álitaefni um hæfi einstakra embættismanna með málflutningi í fjölmiðlum. Er þar væntanlega verið að vísa til um ummæla Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, um hæfi ríkissaksóknara.
Í ályktuninni, sem send var dómsmálaráðherra í dag, segir m.a. að brýnt sé að rannsaka vandlega hvort lög hafi verið brotin í aðdraganda og eftirmálum bankahrunsins. Eðli málsins samkvæmt hljóti sú rannsókn að verða umfangsmikil og taka til þeirra sem rökstuddur grunur leiki á að hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi.
Mikilvægi rannsóknarefnisins megi hins vegar ekki verða til þess að gengið sé á svig við reglur sem um rannsókn gilda, eða að réttaröryggi verði fyrir borð borið.
„Ísland er og á að vera réttarríki. Í því felst að ríkisvaldið fari fram á grundvelli gildandi lagareglna, meðal annars þeirrar reglu að sakaðir menn séu saklausir uns sekt er sönnuð. Augljóst er að bankahrunið olli gífurlegum skaða. Reiði vegna þeirra atburða má ekki verða til þess að slegið verði af kröfum sem gerðar eru til Íslands sem réttarríkis er virði grundvallarmannréttindi. Þá má heldur ekki slá af kröfum til opinberra rannsókna, þ.á.m. um hlutlægni rannsakenda og meðalhóf í beitingu opinbers valds.
Að gefnu tilefni má í þessu samhengi nefna álitaefni um hæfi einstakra embættismanna. Um hæfi gilda settar lagareglur sem ber að virða. Varhugavert er að rannsakendur eða handhafar opinbers valds freisti þess að ná fram úrlausn um álitaefni af því tagi með málflutningi í fjölmiðlum," segir m.a. í ályktuninni.