Sigrún Bragadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, segir að engu hafi verið leynt varðandi lánveitingar sjóðsins til Kópavogsbæjar. Segist hún undrast, að einstaka stjórnarmenn sjóðsins hafi reynt að afvegaleiða staðreyndir málsins í pólitískum tilgangi.
Sigrún hefur sent frá sér yfirlýsingu, þar sem segir, að fullyrt sé í fjölmiðlum að framkvæmdastjóri og stjórnarformaður sjóðsins hafi verið ákværðir vegna gruns um brot á lögum um lífeyrissjóði. Hið rétta er að Fjármálaeftirlitið hafi kært stjórn sjóðsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra en engin ákæra hefur verið gefin út.
„Einnig vill undirrituð árétta það að lánveitingar sjóðsins til Kópavogsbæjar voru veittar til varnar eignum sjóðsins, þegar fjármunir brunnu uppi í íslensku efnahagskerfi og eingöngu með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. Þessar lánveitingar voru veittar með fullri vitund allra stjórnarmanna sjóðsins, í samráði við þá og engu leynt. Undirrituð undast því mjög að einstaka stjórnarmenn hafi reynt að afvegaleiða staðreyndir málsins í pólitískum tilgangi," segir síðan í yfirlýsingu Sigrúnar.