Alþýðuhöllin við höfnina

Tónlistar og ráðstefnuhúsið gengur nú nú undir nafninu Alþýðuhöllin og þangað á að flytjast margvísleg önnur starfsemi en ráð var fyrir gert. Júlíus Vífill Ingvarsson fulltrúi borgarinnar í Austurhöfn vill að Listaháskólinn verði á reitnum.

Þegar er fyrirhugað að íslenska óperan, Íslenski Dansflokkurinn og Tónverkamiðstöðin fái þar inni. Júlíus segir nauðsynlegt að útvíkka starfsemina enda fyrirsjáanlegt að Sinfónían þurfi að draga úr starfsemi sinni vegna kreppunnar.

Júlíus Vífill vill að Listaháskólinn verði á þessum sama reit og fallið verði frá því að reisa skólann milli Hverfisgötu og Laugavegar. Þá geti hluti af starfseminni sjálfri verið í sjálfu húsinu. Hann segir Menntamálaráðuneytið þó eiga síðasta orðið með það.

Strákarnir frá Grímsey sem stunda nám í Slysavarnarskóla sjómanna sem er næsti nágranni Alþýðuhallarinnar svonefndu voru hinsvegar ekki í vafa um hvað ætti að vera þar innan dyra, þeir vilja stöðva framkvæmdir, setja rimla fyrir gluggana og hafa þar framvegis fangelsi fyrir útrásarvíkinga, öðrum til varnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert