Aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, vilja að stjórnvöld einblíni meira á niðurskurð á árunum 2011 til 2013 heldur en skattahækkanir. Áform stjórnvalda í ríkisfjármálum voru kynnt á löngum fundi í stjórnarráðinu í fyrrakvöld.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ætla ASÍ og SA að framlengja núgildandi kjarasamninga til loka nóvembermánaðar árið 2010, með ákveðnum launabreytingum á tímabilinu. Hyggjast samtökin tvískipta þeirri launahækkun, 13.500 krónum, sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí nk., eftir nákvæmlega viku. Þannig verði 6.750 kr. greiddar 1. júlí og seinni hlutinn, 6.750 krónur, greiðist 1. nóvember nk. Jafnframt hefur 3,5% launaþróunartryggingunni verið frestað til 1. nóvember nk. Launahækkun upp á 6.500 krónur, sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 2010, verður færð fram til 1. júní 2010 og þá hækki laun einnig um 2,5%.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru fulltrúar ASÍ og SA nokkuð sáttir við
áformin í ríkisfjármálum fyrir þetta ár og árið 2010. Samkvæmt sömu heimildum
voru mikil vonbrigði hjá fulltrúum beggja með áform stjórnvalda fyrir árin 2011
til 2013. Í þeim efnum munu fulltrúar atvinnurekenda telja að ríkisstjórnin
stefni að svo stófelldum skattahækkunum, m.a. á atvinnulífið, að það muni ekki
rísa undir slíkum álögum. Telja fulltrúar atvinnurekenda að ríkisstjórnin ætli
að ganga alltof skammt í niðurskurði á ríkisútgjöldum, en allt of langt í
aukinni skattheimtu. Fulltrúar ASÍ munu einnig gagnrýnir á áform
ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu, en áhyggjur þeirra beinast ekki síður
að því hvar stjórnvöld hyggist skerða þjónustu, og hvers konar tilfærslur verði
ákveðnar.