Stórlega hefur færst í vöxt að flugi til útlanda sé aflýst og fólk þurfi að breyta áætlunum sínum þess vegna. Kristín Einarsdóttir fulltrúi hjá Neytendasamtökunum segir fleiri en nokkru sinni fyrr bera sig upp við skrifstofuna vegna þess.
Dregið hefur úr utanferðum fólks og flugfélögin fara ekki varhluta af erfiðleikum vegna kreppu. Kristín Einarsdóttir segir að þrátt fyrir að fólk sitji oft uppi með sárt ennið í slíkum viðskiptum hafi flestir reynt að sýna skilning þótt stundum fari sumarleyfið fyrir lítið þar sem viðkomandi hefur þá keypt tengiflug og gistingu miðað við áætlaðan flugtíma frá Íslandi.