„Við erum bara búnir að ganga frá þessum málum og tryggja áframhaldandi samstarf," sagði Gunnsteinn Sigurðsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Kópavogi eftir fund sinn með Ómari Stefánssyni oddvita Framsóknarflokksins í bæjarstjórninni. Fundinum lauk fyrir skömmu.
Gunnsteinn sagði að það hefði legið ljóst fyrir að það kæmi nýr bæjarstjóri á meðan rannsókn efnahagsbrotadeildar lögreglunnar fer yfir störf Gunnars I. Birgissonar í Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavogs.
„Við förum bara yfir það þegar að því kemur," sagði Gunnsteinn um hugsanlega endurkomu Gunnars í bæjarstjórastólinn og samstarfið við Framsóknarflokkinn.
„Gunnar er í leyfi á meðan þessi rannsókn stendur yfir og menn skoða það bara þegar að því kemur," sagði Gunnsteinn.
Sáttur og sæll
„Ég er bara sáttur og sæll með að þetta skuli vera komið í höfn og hlakka til að geta haldið áfram að starfa," sagði Ómar Stefánsson í samtali við mbl.is um sama fundinn en hann sátu allir bæjarfulltrúar flokkanna tveggja.
Ómar sagði að gengið hefði verið að kröfum Framsóknar um áframhaldandi samstarf, meðal annars að samið yrði upp á nýtt um meirihlutasamstarfið ef Gunnar I. Birgisson snéri aftur úr leyfi sínu fyrir kosningar.
Leggja þarf fram og samþykkja tillögu í bæjarstjórn um eftirmann Gunnars I. Birgissonar í bæjarstjórastólinn en fyrr getur Gunnsteinn Sigurðsson ekki tekið við embættinu.