Hin árlega Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka verður að þessu sinni haldin laugardaginn 27. júní nk., segir í fréttatilkynningu . Að vanda verða margir dagskrárliðir og eins og undanfarin ár vænta Eyrbekkingar þess að fá sem flesta íbúa Sveitarfélagsins Árborgar til þess að taka þátt í hátíðinni. Gestir úr nærliggjandi byggðarlögum og lengra aðkomnir eru hjartanlega velkomnir.
,,Yngstu kynslóðinni verður sinnt sérstaklega að þessu sinni með leikja- og skemmtidagskrá sem hefst kl. 11:00 á Garðstúninu við Húsið. Þar koma m.a. í heimsókn þær Skoppa og Skrítla og óvæntar uppákomur verða. Í Gallerý Gónhól hefst dagskrá kl. 14:00 þar sem boðið verður upp á námskeið í flugdrekasmíð og sandkastalalandið verður formlega opnað. Þar verður einnig sýnt atriði úr leikritinu Sjóræningjaprinsessunni.
Hópur frá Listaháskóla Íslands verður með sýningu á smíðaverkstæðinu Merkigili frá kl. 12 til 18. Þar verður einnig opið sunnudaginn 28. júní á sama tíma...
Það má búast við mikilli umferð fornbíla um Bakkann þennan dag, því bæði Fornbílaklúbbur Íslands og Krúser-klúbburinn hafa boðað komu sína og sýna bíla sína þennan dag. Huggulegar dömur í háhæla skóm geta húkkað sér far og farið á rúntinn um þorpsgöturnar...
Þegar brennunni lýkur verður Rauða húsið með dansiball á Stað þar sem hljómsveitin Napoleon heldur uppi fjörinu. Það verður einnig opið í kjallaranum á Rauða húsinu fyrir þá sem vilja meiri rólegheit og Fjörubandið sér þar um stuðið. Aðgangur að söfnunum á Eyrarbakka verður ókeypis þennan dag. Þar eru áhugaverðar sýningar – Hvar varst þú? Stóri skjálfti í borðstofu Hússins og Ferjustaðir í forsal Sjóminjasafnsins."