Mikið atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara

Áætlað er að 22% erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði séu nú án atvinnu. Greining Íslandsbanka segir, að þetta sé mun meira atvinnuleysi en almennt í landinu en skráð atvinnuleysi er rúmlega 8%.

Talið er að um 9000 erlendir ríkisborgarar séu á íslenskum vinnumarkaði. Íslandsbanki segir, að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara hér á landi hafi aukist gríðarlega frá bankahruni en í ágúst á síðasta ári var það innan við 2% og í byrjun árs tæplega 17%.

Um 41% þeirra erlendu ríkisborgara, sem voru skráðir án atvinnu hjá vinnumiðlunum í síðasta mánuði störfuðu, áður í mannvirkjagerð og  samdráttur í þeirri grein hefur því haft gríðarlega mikið að segja um atvinnuhorfur hér á landi fyrir útlendinga. Þá segir Íslandsbanki ljóst, að heimamenn sæki nú í meiri mæli í störf sem áður var erfitt að ráða í góðæri undanfarinna ára.  Þetta geri m.a.  það að verkum að atvinnuleysi hafi aukist meira meðal erlendra ríkisborgara en atvinnuleysi almennt á sama tíma.

Hinsvegar sé ljóst, að mun fleiri störf sem áður voru unnin af útlendingum, hafi tapast á síðustu mánuðum vegna þess að þeir hafi flust af landi brott eftir að hafa misst atvinnuna. Gera megi ráð fyrir því, að um það bil 8000 erlendir ríkisborgarar hafi horfið af íslenskum vinnumarkaði frá bankahruninu í október. Þarna sé í raun um að ræða útflutning á atvinnuleysi en hefði þessi  fjöldi ratað inn á atvinnuleysiskrá væri skráð atvinnuleysi hér á landi mun hærra en raun ber vitni eða um það bil 13,5%. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert