Góður gangur er í viðræðum um áframhaldandi samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi, að sögn Ómars Stefánssonar, oddvita Framsóknarflokksins í bænum. Hann á von á því að gengið verði frá samkomulaginu á fundi sem hefst klukkan 17.
Ómar hefur rætt við Gunnstein Sigurðsson, sem Sjálfstæðismenn hafa útnefnt nýjan bæjarstjóra, í gær og í dag um samstarf flokkanna tveggja. „Ég ætla að hitta hann núna klukkan fimm og klára þetta,“ segir hann.
Allt undir snúi Gunnar aftur
Að hans sögn eru Sjálfstæðimenn tilbúnir til að ganga að kröfum Fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Kópavogi. Þær fela í sér að Sjálfstæðismenn útnefni nýjan bæjarstjóra í stað Gunnars Birgissonar en að auki að samið verði að nýju um meirihlutasamstarfið kjósi Gunnar að snúa aftur í bæjarstjórn.
„Þeir vita hvað í því felst, það er allt undir,“ segir Ómar um þetta.