Menntamálaráðuneytið hefur kynnt forsvarsmönnum framhalds- og háskóla áætlun um niðurskurð á næsta ári. Gert er ráð fyrir að dregið verði saman um 8,5 prósent hjá háskólunum, sem jafngildir um 1,7 milljörðum króna, en um 5 prósent hjá framhaldsskólunum, sem þýðir um ríflega einn milljarð.
Heildarútgjöld til skólastiganna beggja hafa verið um 40 milljarðar, um 20 milljarðar á hvort skólastig.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur helst verið horft til þess, í tilfelli framhaldsskólanna, að draga saman ýmsa viðbótarþjónustu í skólunum, þá helst í kvöldskólum og fjarnámi. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum þar sem endanlegar áætlanir um hvaða þjónusta verður aflögð eða minnkuð, liggja ekki fyrir. Þá gæti niðurskurðurinn komið ólíkt niður á skólum þar sem hver og einn skóli er með sínar áherslur.