Í nýrri skýrslu bresku ríkisendurskoðunarinnar er sveitarstjórnin í Norðaustur Lincolnshire á Englandi gagnrýnd harðlega fyrir að fjárfesta 7 milljónir punda, jafnvirði nærri 1,5 milljarða, hjá íslensku bönkunum í Bretlandi.
Er niðurstaðan sú, að sveitarstjórnin hafi ekki gætt hagsmuna skattgreiðenda.
Norðaustur Lincolnshire var síðasta sveitarfélagið, sem fjárfesti hjá íslensku bönkunum fyrir hrunið í október. Fram kemur í skýrslunni, að af 7 milljóna inneign hafi 4,5 milljónir punda verið lagðar inn hjá Landsbankanum og Kaupthing Singer & Friedlander nokkrum dögum áður en bankarnir féllu.
Í skýrslunni kemur fram, að fjármálastjórn sveitarfélagsins hafi verið verulega ábótavant. Þannig hafi aðstoðar fjármálastjórinn þann 1. október staðfest lista yfir þá banka, sem talið var öruggt að fjárfesta hjá án frekari athugunar. Þar á meðal voru íslensku bankarnir. Daginn áður hafi hins vegar alþjóðleg matsfyrirtæki lækkað einkunn íslensku bankanna.