Fréttaskýring: Aðferðinni breytt til að hækka tollinn

Frá árinu 1995 hefur landbúnaðarráðuneytið gefið út tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum í samræmi við aðild Íslands að samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Nú hefur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra ákveðið að úthluta þessum WTO-tollum ekki „að sinni“ en með því vill hann vernda innlenda framleiðslu. Samtök verslunar og þjónustu segja að ráðherra hafi ekki heimild til að ákveða, upp á sitt eindæmi, að úthluta ekki þessum kvótum og að ákvörðun hans feli í sér brot á samningnum við WTO.

Samkvæmt samningi WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) frá 1995 skuldbundu aðildarríki sig m.a. til að úthluta tollkvóta, þ.e.a.s. heimild til innflutnings á landbúnaðarafurðum á lægri tollum.

Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu er hægt að leggja toll á magn, þ.e. ákveðna upphæð á hvert kíló, eða leggja toll á kaupverðið, verðtoll.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur þessum aðferðum verið blandað saman en í meira mæli verið stuðst við magntollinn.

Breytti reikningsaðferðinni

Nú hefur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra á hinn bóginn ákveðið að miða tollinn eingöngu við verðið. Afleiðingin er sú að upphæðin sem myndi leggjast ofan á vörurnar verður mun hærri en ef miðað væri við magntoll. Það staðfesti Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmaður ráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að það væri ekkert launungarmál að tilgangurinn með þessum breytingum væri að draga úr innflutningi á erlendum landbúnaðarafurðum. „Það er nú bara ekkert flóknara en það,“ sagði Jóhann. Væntanlega hefði innflutningur einnig orðið erfiður þótt engar breytingar hefðu verið gerðar sökum þess hversu mjög gengi krónunnar hefur fallið.

Segja verðtoll útiloka úthlutun

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þar sem ákveðið hafi verið að notast eingöngu við verðtollinn og vegna stöðu gengis krónunnar og hækkunar á innflutningsverði landbúnaðarvara, séu ekki forsendur til að úthluta sérstaklega WTO-tollkvótum. Sýnt þyki að tollur „innan tollkvóta“ yrði hærri en almennir tollar.

Samtök verslunar og þjónustu hafa harðlega mótmælt þessari ákvörðun. Þau hyggjast benda Jóni Bjarnasyni á að með aðild að WTO-samningnum hafi Ísland skuldbundið sig til að úthluta tollkvótum fyrir innflutningi landbúnaðarafurða. Ráðherrann hafi með öðrum orðum ekki heimild til að sleppa því að úthluta tollkvótanum.

Samkvæmt WTO-samningnum ber Íslandi að tilkynna um allar meiriháttar breytingar sem gerðar eru á framkvæmd hans. Að hætta við að úthluta tollkvótunum telst án vafa vera meiriháttar breyting og einnig má velta því fyrir sér hvað öðrum WTO-ríkjum kunni að finnast um tilgang aðgerðanna.

Brot gegn neytendum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að landbúnaðarráðherra geti ekki einfaldlega ákveðið að auglýsa ekki tollkvóta til úthlutunar án þess að færa fyrir því nokkur málefnaleg rök. Með því sé brotið á neytendum og gegn samningi Íslands við WTO. „Það getur haft alvarleg áhrif á orðspor og virðingu Íslands sem er búið að byggja upp um árabil hjá stofnuninni,“ segir hann.

Ákvörðun ráðuneytisins sé algjörlega óskiljanleg. „Rökin eru þau að gengi krónunnar sé þannig að úthlutun myndi ekki skila lægra verði. Það er bara ekki ráðuneytisins að vega það og meta.“ Ákvörðunin sé á skjön við það meginverkefni stjórnvalda að leita allra leiða til að almenningur í landinu geti keypt nauðsynjavörur á sem hagstæðustu verði. „Neytendur hljóta að eiga þá kröfu til þess að stjórnvöld leggi því lið að í boði séu matvæli sem eru eins ódýr og kostur er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert