Frá árinu 1995 hefur landbúnaðarráðuneytið gefið út tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum í samræmi við aðild Íslands að samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Nú hefur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra ákveðið að úthluta þessum WTO-tollum ekki „að sinni“ en með því vill hann vernda innlenda framleiðslu. Samtök verslunar og þjónustu segja að ráðherra hafi ekki heimild til að ákveða, upp á sitt eindæmi, að úthluta ekki þessum kvótum og að ákvörðun hans feli í sér brot á samningnum við WTO.
Samkvæmt samningi WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) frá 1995 skuldbundu aðildarríki sig m.a. til að úthluta tollkvóta, þ.e.a.s. heimild til innflutnings á landbúnaðarafurðum á lægri tollum.
Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu er hægt að leggja toll á magn, þ.e. ákveðna upphæð á hvert kíló, eða leggja toll á kaupverðið, verðtoll.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur þessum aðferðum verið blandað saman en í meira mæli verið stuðst við magntollinn.
Samtök verslunar og þjónustu hafa harðlega mótmælt þessari ákvörðun. Þau hyggjast benda Jóni Bjarnasyni á að með aðild að WTO-samningnum hafi Ísland skuldbundið sig til að úthluta tollkvótum fyrir innflutningi landbúnaðarafurða. Ráðherrann hafi með öðrum orðum ekki heimild til að sleppa því að úthluta tollkvótanum.
Samkvæmt WTO-samningnum ber Íslandi að tilkynna um allar meiriháttar breytingar sem gerðar eru á framkvæmd hans. Að hætta við að úthluta tollkvótunum telst án vafa vera meiriháttar breyting og einnig má velta því fyrir sér hvað öðrum WTO-ríkjum kunni að finnast um tilgang aðgerðanna.
Ákvörðun ráðuneytisins sé algjörlega óskiljanleg. „Rökin eru þau að gengi krónunnar sé þannig að úthlutun myndi ekki skila lægra verði. Það er bara ekki ráðuneytisins að vega það og meta.“ Ákvörðunin sé á skjön við það meginverkefni stjórnvalda að leita allra leiða til að almenningur í landinu geti keypt nauðsynjavörur á sem hagstæðustu verði. „Neytendur hljóta að eiga þá kröfu til þess að stjórnvöld leggi því lið að í boði séu matvæli sem eru eins ódýr og kostur er.“