Stöðugleikasáttmálinn var undirritaður eftir hádegi en hann felur í sér samkomulag stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði um aðgerðir til að stuðla að endurreisn efnahagslífsins.
Meðal annars verða kjarasamningar framlengdir til loka nóvember, staða skuldugra heimila verður bætt, farið verður í stórframkvæmdir til að tryggja aukna atvinnu, sköpuð verði skilyrði til vaxtalækkunar og stefnt að afnámi gjaldeyrishafta sem fyrst. Þá verði unnið gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta.
Litlu munaði að upp úr syði vegna áherslu verkalýðsforkólfa og vinnuveitenda á einkamarkaði á það að dregið yrði úr vægi skattahækkana í því að ná fram hagræðingu en frekar skorið meira niður. Fulltrúar opinberra starfsmanna óttuðust um sinn hag. Menn urðu þó ásáttir um að hlutfall skatta í efnahagsaðgerðum vegna kreppunnar yrði ekki hærra en 45 prósent á árunum 2009 til 2011.
Konur innan verkalýðshreyfingarinnar hafa áhyggjur af því að niðurskurður í opinberri þjónustu geti orðið til þess að fækka kvennastörfum meðan verja eigi fé til stórframkvæmda í samstarfi við lífeyrissjóðina til að veita körlum atvinnu. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að konur og karlar lifi í sama samfélagi og menn eigi ekki að leyfa sér að skipta þessu upp á þennan hátt. Það sé verið að segja fólki í byggingaiðnaði og verktakabransanum upp í stórum stíl. Ef hægt verði að koma þessum geira í gagnið aftur þýði það meiri umsvif, minni skatta og minni þörf á því að skera niður hjá ríkinu.