Einstefna í Gilinu?

Gilið er ekki bara umferðaræð; um fimm þúsund manns hlýddu …
Gilið er ekki bara umferðaræð; um fimm þúsund manns hlýddu á óperutónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Gilinu á Akureyrarvöku árið 2006. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íbúar við Kaupvangsstræti á Akureyri, Gilið sem svo er kallað hafa kvartað vegna hávaða vegna umferðar. Meðal þeirra leiða sem eru í skoðun er lækkun hámarkshraða í 30 km á klukkustund, hraðahindranir eða hugsanlega að gatan verði gerð að einstefnu á niðurleið. Fréttavefurinn akureyri.net segir frá þessu.

Hraðahindrunum var nýlega komið fyrir fyrir í Kaupvangsstræti og hefur þeim verið vel tekið, að sögn Helga Más Pálssonar, deildarstjóra framkvæmdadeildar bæjarins í samtali við akureyri.net. Hraðahindranirnar, sem eru færanlegar, var komið fyrir í Gilinu fyrir Bíladaga, meðal annars til að bregðast við kvörtunum íbúa í götunni, en mikill hávaði er oft af bílum og mótorhjólum sem þeysa upp gilið með inngjöfina í botni. Fá hindranirnar að standa fram yfir verslunarmannahelgi, en eftir það verður skoðað hvaða leiðir verða farnar til að lækka hraða og minnka umferð um Gilið.

Meðal þeirra leiða sem eru í skoðun, að sögn Helga, er lækkun hámarkshraða í 30 km á klukkustund, hraðahindranir eða hugsanlega að gatan verði gerð að einstefnu á niðurleið.

www.akureyri.net

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka